Hin góða barátta trúarinnar

Varðveisla líkama

Verið algáðir


Fyrra Þessaloníkubréf 5:6-8 Sofum því ekki eins og aðrir heldur vökum og verum allsgáð. Því að þau sem sofa, sofa um nætur og þau sem drekka sig drukkin, drekka um nætur. En við sem heyrum deginum til skulum vera allsgáð, klædd trú og kærleika sem brynju og voninni um frelsun sem hjálmi.
Stundið réttlæti


Síðara Tímóteusarbréf 2:22 Flý þú æskunnar girndir en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið ásamt þeim sem ákalla Drottin af hreinu hjarta.
Hreinsum sjálf okkur af saurgun


Síðara Korintubréf 7:1 Þar eð við því höfum þessi fyrirheit, elskuð börn mín, þá hreinsum okkur af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun okkar í guðsótta.
Verið hugrökk


Filippíbréfið 1:27-28 En hvað sem öðru líður, þá hegðið ykkur eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist. Hvort sem ég kem og heimsæki ykkur eða ég er fjarverandi vil ég fá að heyra um ykkur að þið standið stöðug í einum anda, berjist með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið og látið aldrei mótstöðumenn skelfa ykkur í neinu. Hugrekki ykkar er þeim merki frá Guði um glötun þeirra en um frelsun ykkar
Góður hermaður Krists Jesú


Síðara Tímóteusarbréf 2:3 Þú skalt og að þínu leyti illt þola eins og góður hermaður Krists Jesú.
Góður borgari


Rómverjabréfið 13:1-7 Hver maður hlýði þeim yfirvöldum sem eru yfir hann sett. Því engin væru yfirvöld ef Guð gæfi þau ekki. Þau sem eru til hefur Guð skipað. Sá sem veitir yfirvöldum mótstöðu veitir skipan Guðs mótstöðu og hlýtur að fá sinn dóm. Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdhafa heldur sá sem vinnur vond verk. Viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöld skaltu gera það sem gott er og þá færðu þeirra lof, því að þau þjóna Guði þér til góðs. En ef þú gerir það sem illt er þá máttu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverð sitt ófyrirsynju. Þau þjóna Guði og er skylt að refsa þeim sem illt fremja. Því er nauðsyn að hlýðnast, ekki aðeins af ótta við hegningu heldur og vegna samvisku sinnar.
Enda er það þess vegna sem þið gjaldið skatta, að valdhafar eru þjónar Guðs í því sem þeir eiga að annast. Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt sem skattur ber, þeim virðingu sem virðing ber, þeim heiður sem heiður ber.
Bindindissemi í öllu


Fyrra Korintubréf 9:25-27 Sérhver sem tekur þátt í kappleikjum leggur hart að sér. Þeir sem keppa gera það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig en við óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær. Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur.

Varðveisla sálar

Íklæðist alvæpni Guðs


Efesusbréfið 6:10-18 Að lokum: Styrkist í Drottni og krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs til þess að þið getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan sem við eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Takið því alvæpni Guðs til þess að þið getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli þegar þið hafið sigrað allt.
Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. Takið umfram allt skjöld trúarinnar sem þið getið slökkt með öll logandi skeyti hins vonda. Setjið upp hjálm hjálpræðisins og grípið sverð andans, Guðs orð. Gerið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið þannig árvökul og stöðug í bæn fyrir öllum heilögum.
Einbeitni


Filippíbréfið 3:13-14 Systkin, ekki tel ég sjálfan mig enn[ hafa höndlað það. En eitt geri ég. Ég gleymi því sem að baki er en seilist eftir því sem fram undan er og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til.
Trúartraust


Sálmarnir 91 Sá er situr í skjóli Hins hæsta
og dvelst í skugga Hins almáttka
segir við Drottin:
„Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á.“
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt eyðingarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og vígi.
Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar
eða örina sem flýgur um daga,
drepsóttina sem læðist um í dimmunni
eða sýkina sem geisar um hádegið.
Þótt þúsund falli þér við hlið
og tíu þúsund þér til hægri handar
þá nær það ekki til þín.
Þú munt sjá með eigin augum,
horfa á hvernig óguðlegum er endurgoldið.
Þitt hæli er Drottinn,
þú hefur gert Hinn hæsta að athvarfi þínu.
Engin ógæfa hendir þig
og engin plága nálgast tjald þitt
því að þín vegna býður hann út englum sínum
til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.
Þeir munu bera þig á höndum sér
svo að þú steytir ekki fót þinn við steini.
Þú munt stíga yfir ljón og nöðru,
troða fótum ungljón og dreka.
Þar sem hann er mér trúr bjarga ég honum,
ég vernda hann því að hann þekkir nafn mitt.
Ákalli hann mig mun ég bænheyra hann,
ég er hjá honum í neyðinni,
ég frelsa hann og geri hann vegsamlegan.
Ég metta hann með fjöld lífdaga
og læt hann sjá hjálpræði mitt.
Nægjusemi


Fyrra Tímóteusarbréf 6:6 Já, trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur.
Verið brennandi í andanum


Rómverjabréfið 12:11 Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni.
Breytið ekki sem fávís


Efesusbréfið 5:15-17 Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins.
Óflekkaður hendur: hreint hjarta


Sálmarnir 24 Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er,
heimurinn og þeir sem í honum búa,
því að hann grundvallaði hana á hafinu,
festi hana á vötnunum.
Hver fær að stíga upp á fjall Drottins
og hver fær að dveljast á hans helga stað?
Sá sem hefur flekklausar hendur og hreint hjarta,
sækist ekki eftir hégóma
og vinnur ekki rangan eið.
Hann hlýtur blessun frá Drottni
og réttlæti frá Guði, frelsara sínum.
Þetta er sú kynslóð sem leitar hans,
þráir auglit þitt, Jakobs Guð. (Sela)
Þér hlið, lyftið höfðum yðar,
hefjið yður, þér öldnu dyr,
svo að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
Hver er þessi konungur dýrðarinnar?
Það er Drottinn, hin volduga hetja,
Drottinn, bardagahetjan.
Þér hlið, lyftið höfðum yðar,
hefjið yður, þér öldnu dyr,
svo að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
Hver er þessi konungur dýrðarinnar?
Það er Drottinn hersveitanna,
hann er konungur dýrðarinnar.
Þreytumst ekki að gjöra gott


Galatabréfið 6:9 Þreytumst ekki að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp.
Samúð og lítillæti


Rómverjabréfið 12:15-16 Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum. Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum.
Biðjið Guð um visku


Jakobsbréfið 1:5-8 Ef einhvern mann í ykkar hópi brestur visku, þá biðji hann Guð sem gefur öllum örlátlega og átölulaust og honum mun gefast. En hann biðji í trú án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu er rís og hrekst fyrir vindi. Sá maður má eigi ætla að hann fái nokkuð hjá Drottni. Hann er tvílyndur og reikull í öllu atferli sínu.
Lögmál frelsisins


Jakobsbréfið 2:12 Talið því og breytið eins og þeir er dæmast eiga eftir lögmáli frelsisins.
Þolgæðis er ykkur þörf


Hebreabréfið 3:14 Því að við erum orðin hluttakar Krists svo framarlega sem við treystum honum staðfastlega allt til enda eins og í upphafi.
Geðprýði


Jakobsbréfið 1:19 Vitið þetta, elskuð systkin. Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.
Göfuglyndi


Filippíbréfið 4:8 Að endingu, systkin, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.
Sannleikanum trúr í kærleika


Efesusbréfið 4:15 Við eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans sem er höfuðið, Kristur.

Varðveisla anda

Keppið eftir kærleikanum


Fyrra Korintubréf 13 Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum
og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur
en hefði ekki kærleika,
væri ég engu bættari.
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok,
og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.
Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.
En þegar hið fullkomna kemur líður það undir lok sem er í molum.
Þegar ég var barn talaði ég eins og barn,
hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn.
En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn.
Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu,
en þá munum vér sjá augliti til auglitis.
Nú er þekking mín í molum
en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.
En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur.
Guð er okkur hæli og styrkur


Hebreabréfið 13:5-6 Verið ekki fégráðug en látið ykkur nægja það sem þið hafið. Guð hefur sjálfur sagt: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ Því getum við örugg sagt:
Drottinn er minn hjálpari,
eigi mun ég óttast.
Hvað geta mennirnir gert mér?
Trúið á Guð


Markúsarguðspjall 11:22-24 Jesús svaraði þeim: „Trúið á Guð. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem segir við fjall þetta: Lyft þér upp og steyp þér í hafið, og efar ekki í hjarta sínu heldur trúir að svo fari sem hann mælir, þá gerist það. Fyrir því segi ég ykkur: Ef þið biðjið Guð um eitthvað og treystið því að þið öðlist það, þá mun hann veita ykkur það.
Trúmennska


Markúsarguðspjall 13:34-37 Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“
Góðvild og miskunnsemi


Efesusbréfið 4:31-32 Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.
Ljúflyndi og hógværð


Síðara Tímóteusarbréf 2:24 Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum.
Þakkið Drottni


Filippíbréfið 4:6 Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.
Fullkominn fögnuður


Jóhannesarguðspjall 15:11 Þetta hef ég talað til yðar til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn.
Gjaldið illt með góðu


Rómverjabréfið 12:17 Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.
Óttist Guð


Fyrra Pétursbréf 2:17 Virðið alla menn, elskið samfélag þeirra sem trúa, óttist Guð, heiðrið keisarann.
Verið með hugarfari Krists


Filippíbréfið 2:3-11 Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.
Hann var í Guðs mynd.
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd
og varð mönnum líkur.
Hann kom fram sem maður,
lægði sjálfan sig
og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.
Fyrir því hefur og Guð
hátt upp hafið hann
og gefið honum nafnið,
sem hverju nafni er æðra,
til þess að fyrir nafni Jesú
skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu
og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.
Síauðug í verki Drottins


Fyrra Korintubréf15:58 Þess vegna, mín elskuðu systkin, verið staðföst, óbifanleg, síauðug í verki Drottins. Þið vitið að Drottinn lætur erfiði ykkar ekki verða til ónýtis.
Umberið hvort annað


Kólossubréfið 3:12-13 Íklæðist því eins og Guðs útvalin, heilög og elskuð börn hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera.
Náð Drottins vors Jesú


Síðara Korintubréf 8:9 Þið þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gerðist fátækur ykkar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þið auðguðust af fátækt hans.
Guð er kærleikur


Fyrsta Jóhannesarbréf 4:7-8 Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur.
Sælir eru hógværir


Matteusarguðspjall 5:6 Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
Sælir eru miskunnsamir


Matteusarguðspjall 5:7 Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
Hlýðnir Drottni


Postulasagan 5:29 En Pétur og hinir postularnir svöruðu: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.
Drottinn er í nánd


Hebreabréfið 10:36-37 Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að:
Innan harla skamms tíma
mun sá koma sem koma á og ekki dvelst honum.
Hafið frið við alla menn


Rómverjabréfið 12:18 Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.
Fyrirmynd í góðum verkum


Títusarbréfið 2:6-8 Svo skalt þú og brýna fyrir ungum mönnum að vera hóglátir. Vertu sjálfur fyrirmynd í góðum verkum. Vertu grandvar í fræðslu þinni og heilhuga svo hún verði heilnæm og óaðfinnanleg og andstæðingurinn fyrirverði sig þegar hann hefur ekkert illt um okkur að segja.
Rétt mat


Filippíbréfið 1:9-10 Og þess bið ég að elska ykkar aukist enn þá meir að þekkingu og dómgreind svo að þið getið metið þá hluti rétt sem máli skipta og verðið hrein og ámælislaus til dags Krists,
Samhugur og hluttekning


Fyrra Pétursbréf 3:8-9 Að lokum, verið öll samhuga, hluttekningarsöm og elskið hvert annað, verið miskunnsöm, auðmjúk. Gjaldið ekki illt með illu eða illmæli fyrir illmæli heldur þvert á móti blessið því að þið eruð til þess kölluð að öðlast blessunina.
Varist vélabrögð villunnar


Efesusbréfið 4:14-15 Við eigum ekki að halda áfram að vera börn sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi og tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar. Við eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans sem er höfuðið, Kristur.
Vandlæti vegna húss Drottins


Jóhannesarguðspjall 2:13-17 Nú fóru páskar Gyðinga í hönd og Jesús hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum þá er seldu naut, sauði og dúfur og víxlarana sem sátu þar. Þá gerði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra og við dúfnasalana sagði hann: „Burt með þetta héðan. Gerið ekki hús föður míns að sölubúð.“ Lærisveinum hans kom í hug að ritað er: „Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“