Saga félagsins

Upphafið að stofnun Gídeonhreyfingarinnar er rakið til þess atburðar er átti sér stað haustkvöld eitt vestur í Bandaríkjunum árið 1898. Sölumaður að nafni John H. Nicholson kom örþreyttur inn á Central Hotel of Boscobel í Wisconsin og baðst gistingar. Afgreiðslumaðurinn í gestamóttökunni kannaðist við John og sagði honum að einungis einu rúmi væri óráðstafað á herbergi nr. 19, sem væri tveggja manna. Hitt rúmið væri frátekið öðrum sölumanni er hét Samúel E. Hill, og benti afgreiðslumaðurinn um leið á mann sem sat þar skammt frá önnum kafinn við frágang á viðskiptapöntunum dagsins.

John sá að Samúel var snyrtilegur náungi sem stakk nokkuð í stúf við umhverfið, því þarna lá drukkinn maður á gólfinu úti í horni, spilaður var póker á tveimur stöðum í salnum, loftið var mettað tóbaksreyk og skerandi hávaði barst frá opinni hurð er lá að barnum. John fór upp á herbergið eftir að hafa fengið samþykki Samúels fyrir að deila herberginu með honum. Hann kveikti ljósið, tók þvottaskálina og könnuna ofan af marmaraplötunni á þvottaborðinu til að ganga frá viðskiptum dagsins. Hann opnaði töskuna sína, tók upp Biblíuna sem hann hafði alltaf meðferðis og kom henni fyrir á borðsendanum og fór síðan að vinna.

Skömmu seinna kom Samúel inn, háttaði sig í skyndi, lagðist til hvílu og var sofnaður með það sama. John lauk vinnunni, teygði sig í Biblíuna á borðsendanum og fór að lesa í henni að venju. Í sama mund vaknaði Samúel. John hélt að ljósið hefði vakið hann og sagði: „Fyrirgefðu, að ég læt ljósið loga aðeins lengur, því ég hef það að reglu að lesa í Guðs orði og tala við Drottinn áður en ég fer að sofa.“

Í hvert skipti sem John sagði frá þessu atviki og hér var komið sögu, sagði hann: „Ég gleymi aldrei svipnum á Samúel um leið og hann hentist upp úr rúminu sínu og sagði: Lestu fyrir mig, ég er líka kristinn.“ John las í 15. kafla Jóhannesarguðspjalls og hafði eftirfarandi ritningarvers sérstök áhrif á þá báða þetta kvöld: „Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni.“ Jóh.15:16.

Á eftir krupu þessir tveir menn niður og báðu, síðan spjölluðu þeir saman og létu hugann reika til klukkan tvö um nóttina eins og tveir ungir skóladrengir. Það var þá sem hugmynd kviknaði að stofnun félagsskapar kristinna manna sem væru á ferð og flugi vegna atvinnu sinnar.

Gídeonfélagið á Íslandi var stofnað árið 1945.

Gídeonfélagið á Íslandi

Sendu okkur skilaboð

Heimilsfang
Langholtsvegur 111
104 Reykjavík


Póstur sendist:
Pósthólf 8488
128 Reykjavík

Opnunartími skrifstofu
þriðjudaga frá 17:00-21:00.

Einnig er opið eftir samkomulagi.

Reikningsnúmer félagsins:

Rkn.nr. 0525-26-103

Kt. 510571-0109

© Gídeonfélagið á Íslandi 2019. gideon@gideon.is