Markmið Gídeonfélagsins er að færa þeim von sem ekki þekkja náðarverk Jesú Krists. Það gerum við meðal annars með því að koma orði Guðs í hendur fólks á sem flestum aldursskeiðum þess.

Um Gídeonfélagið

Um Gídeonfélagið

Stofnun félagsins


Upphafið að stofnun Gídeonhreyfingarinnar er rakið til þess atburðar er átti sér stað haustkvöld eitt vestur í Bandaríkjunum árið 1898. Sölumaður að nafni John H. Nicholson kom örþreyttur inn á Central Hotel of Boscobel í Wisconsin og baðst gistingar. Afgreiðslumaðurinn í gestamóttökunni kannaðist við John og sagði honum að einungis einu rúmi væri óráðstafað á herbergi nr. 19, sem væri tveggja manna. Hitt rúmið væri frátekið öðrum sölumanni er hét Samúel E. Hill, og benti afgreiðslumaðurinn um leið á mann sem sat þar skammt frá önnum kafinn við frágang á viðskiptapöntunum dagsins. John sá að Samúel var snyrtilegur náungi sem stakk nokkuð í stúf við umhverfið, því þarna lá drukkinn maður á gólfinu úti í horni, spilaður var póker á tveimur stöðum í salnum, loftið var mettað tóbaksreyk og skerandi hávaði barst frá opinni hurð er lá að barnum. John fór upp á herbergið eftir að hafa fengið samþykki Samúels fyrir að deila herberginu með honum. Hann kveikti ljósið, tók þvottaskálina og könnuna ofan af marmaraplötunni á þvottaborðinu til að ganga frá viðskiptum dagsins. Hann opnaði töskuna sína, tók upp Biblíuna sem hann hafði alltaf meðferðis og kom henni fyrir á borðsendanum og fór síðan að vinna. Skömmu seinna kom Samúel inn, háttaði sig í skyndi, lagðist til hvílu og var sofnaður með það sama. John lauk vinnunni, teygði sig í Biblíuna á borðsendanum og fór að lesa í henni að venju. Í sama mund vaknaði Samúel. John hélt að ljósið hefði vakið hann og sagði: „Fyrirgefðu, að ég læt ljósið loga aðeins lengur, því ég hef það að reglu að lesa í Guðs orði og tala við Drottinn áður en ég fer að sofa.“ Í hvert skipti sem John sagði frá þessu atviki og hér var komið sögu, sagði hann: „Ég gleymi aldrei svipnum á Samúel um leið og hann hentist upp úr rúminu sínu og sagði: Lestu fyrir mig, ég er líka kristinn.“ John las í 15. kafla Jóhannesarguðspjalls og hafði eftirfarandi ritningarvers sérstök áhrif á þá báða þetta kvöld: „Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni.“ Jóh.15:16. Á eftir krupu þessir tveir menn niður og báðu, síðan spjölluðu þeir saman og létu hugann reika til klukkan tvö um nóttina eins og tveir ungir skóladrengir. Það var þá sem hugmynd kviknaði að stofnun félagsskapar kristinna manna sem væru á ferð og flugi vegna atvinnu sinnar. Gídeonfélagið á Íslandi var stofnað árið 1945.
Stofnun kvennadeildanna


Fyrsta kvennadeildin var stofnuð í Bandaríkjunum árið 1923. Haustið 1977 var kvennadeild stofnuð í Reykjavík og stuttu síðar á Akureyri. Nú eru starfandi þrjár kvennadeildir Gídeonfélaga á Íslandi, tvær á suðvesturhorninu og ein á Akureyri. Einnig eru nokkrar konur víðs vegar um landið félagar í kvennadeildunum. Konurnar hittast mánaðarlega til fyrirbæna fyrir starfinu og sjá um afhendingu Nýja testamenta til hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og iðjuþjálfa við útskrift þeirra. Þær sjá einnig um dreifingu Nýja testamenta á heilsugæslustöðvar auk ýmissa annarra starfa.
Merki Gídeonfélagsins


Einkennismerki Gídeonfélaganna er skemmtilega stílfærð eftirlíking á vopninu sem menn Gídeons beittu í baráttunni við Midíaníta og Amalekíta. Hvítt leirker á bláum grunni og logar rauður logi upp úr því sem kyndill. Kerið er svo umlukið gylltum hring út á jaðri merkisins. Blár bakgrunnur er táknar hollustu, hringur úr gulli sem er tákn fyrir eign Guðs en mest áberandi hluturinn er sjálft kerið sem minnir okkur á það hvernig Gídeon notaði kerin til að vinna bug á herliði Midíans í Dómarabókinni 7:16.
Hvað gerir Gídeonfélagið?


Stærsti þáttur Gídeonfélagsins er að gefa Nýja testamentið til þeirra sem vilja. Stærsta verkefni hvers árs er heimsókn í grunnskóla landsins en langflest sveitarfélög bjóða Gídeonfélaga velkomna í skólana sína með sína góðu gjöf, Nýja testamentið, enda styður gjöfin við markmið aðalnámskrár grunnskóla um þekkingu á kristinni trú og sögum Biblíunnar. Einnig gefur Gídeonfélagið Nýja testamentið á hótelherbergi, á öldrunarheimili, í fangaklefa og víðar. Gídeonfélagið á Íslandi er hluti af Alþjóðasamtökum Gídeonfélaga. Gídeonfélagar fara reglulega í heimsóknir í kirkjur og kynna þar starf félagsins. Þar gefst kirkjugestum tækifæri til að gefa fé í Biblíusjóð félagsins.

Sögur úr starfinu

Takk fyrir fyrir að sá orði Guðs í líf mitt


Ég ólst upp á guðlausu heimili. Faðir minn sagði oft við mig að „það er ekki til neinn Guð, enginn himinn og ekkert helvíti.“ Foreldrar mínir voru alkóhólistar og orðin Guð og Jesús voru aðeins notuð sem blótsyrði á heimili okkar. Ég gekk í Springfield Public School og ég man þegar ég var í grunnskólanum að Gídeonmönnum var leyft að standa á gangstéttinni við hlið skólalóðarinnar og úthluta vasa Nýja testamentum. Þetta var fyrsta Biblían sem ég hafði nokkurn tíma séð og hún var það lítil að ég gat falið hana í dótinu mínu heima og foreldrar mínir myndu aldrei verða vör við hana. Ég hef varðveitt þessa Biblíu í öll þessi ár og gaf hana syni mínum, sem er nú virkur í kristilegu starfi. Ég veit að þetta „sæði“ Guðs orðs sem mér var gefið þennan dag í skólanum átti mikinn þátt í að breyta lífi mínu. Jafnvel þótt ég skildi ekki allt sem ég las á þessum tíma þá segir Biblían að orð Guðs muni ekki snúa tómt til baka. Ég vil lofa og þakka Drottni Jesú Kristi! Fyrir náð Guðs frelsaðist ég síðan þegar ég var 15 ára að aldri. Mig langar til að segja við Gídeonmenn Takk fyrir fyrir að sá orði Guðs í lífi mínu og svo margra annarra. Ég bið þess að Drottinn blessi starf ykkar ríkulega og að hann muni opna ykkur dyr sem enginn getur lokað. Þakka ykkur fyrir enn og aftur! Connie, Missouri The Gideon des.-jan. 2013 Árni Hilmarsson þýddi
Notaði pappírinn í því til að vefja sér sígarettur


Joey fékk afhent Nýja testamenti þegar hann var í fangelsi en notaði pappírinn í því til að vefja sér sígarettur. Hann reykti allt Nýja testamentið nema Opinberunarbókina, sem einhver í fangelsinu notaði til að prédika fyrir honum. „Ég varð fullgildur „gangster“ í undirheimum London, og var inn og út úr fangelsi. Ég framdi glæpi sem varla er hægt að segja frá. Áfengi og eiturlyf voru það sem hélt mér gangandi þangað til ég komst út á ystu nöf. Þá ákvað ég að enda þetta allt. Ég tók byssurnar sem ég hafði notað á aðra til að spila rússneska rúllettu við sjálfan mig. En þrjár tilraunir með þrjár byssur sem hingað til höfðu alltaf virkað fullkomlega mistókust algerlega. Ég var náttúrulega „high“ í áfengis- og eiturlyfjavímu, það hellirigndi, en ég féll á kné í forina og hrópaði upp til Guðs. Ég var sem lamaður, en orðin sem ég hafði lesið og höfðu verið útskýrð fyrir mér í fangelsinu, orðin úr því sem eftir var af Nýja testamentinu mínu, þessi orð flæddu allt í einu yfir mig: „Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.“ Op. 3:20. Og Joey Daniels breyttist. Hann frelsaðist frá lífsskoðun sinni og lífsháttum og frá syndum sínum og rekur nú starfsemi við að hjálpa áfengis- og eiturlyfjasjúklingum að losna úr böndum fíknarinnar og að boða þeim fagnaðarerindi Jesú Krists. Viðbót: Joey segir sjálfur í vídeói „Guð mætir þér þar sem þú ert. Ekki öfugt.“ Sem sagt, Guð mætir þér hér. Þú þarft ekki að undirbúa þig. Þú þarft ekki að fara í kirkju til þess að hitta hann. Hann er hér. Og hann á erindi við þig. Þýtt úr Gideons NA British Isles 2012, Böðvar Björgvinsson, 10. júní 2018.
Kannski hefði mín köllun í lífinu orðið önnur


Það var ánægjulegt fyrir okkur í Selfosskirkju að geta tekið á móti Gideonfélaginu með ársþing sitt og var ekki síður dýrmætt að hafa félaga þeirra þátttakendur í okkar hefðbundu sunnudagsmessu. Í messunni tók ég með mér og sýndi fólki mitt Nýja testamenti sem ég fékk einmitt að gjöf frá Gideonfélaginu fyrir rúmum þrjátíu árum. Gjöfin safnaði sannarlega ekki ryki í einhverri bókahillu, því ég gluggaði oft í og las Nýja testamentið og sálmana. Það sést líka á hinni ljósbláu bók að hún var mikið notið því kjölurinn er orðinn illa farinn og ég búin að reyna að binda hana og plasta. Mér þykir líka vænt um að fletta í gegnum hana því ég hef undirstrikað þar ákveðnar greinar sem höfðuðu til mín og það á mismunandi tímum í mínu lífi. Sum staðar hafði ég líka skrifað glósur eða vangaveltur mínar um það sem ég var að lesa. Það er alveg öruggt að þessi gjöf frá Gideonfélaginu hafði mikil áhrif á líf mitt og mögleika mína á því að dýpka trú mína með því að hafa þannig aðgang að þessum hluta Biblíunnar. Það var mér einmitt ekki síður hvatning til þess að lesa önnur rit Biblíunnar og eignaði mér í framhaldinu Biblíuna hans pabba sem var ekki minna lesin. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi gjöf og áhugi minn á því að lesa Nýja testamentið hafi verið einn af örlagavöldum í mínu lífi. Kannski hefði mín köllun í lífinu orðið önnur hefði ég ekki haft svo greiðan aðgang að Nýja testamentinu sem talaði svona sterkt til mín. Mér fannst því heiður að fá að þakka Gideonfélaginu fyrir þeirra gjöf sem sannarlega bar ávöxt og er vonandi hvatning um að halda ykkar góða og dýrmæta starfi áfram. Takk kærlega fyrir mig. Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur Selfosskirkju